Viðskipti innlent

Vill að óháðir aðilar verðmeti eignasafn gamla Landsbankans

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson er þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Mynd/ GVA.
Gunnar Bragi Sveinsson er þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Mynd/ GVA.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, vill að fjármálaráðherra fái heimild til að ráða tvö óháð ráðgjafarfyrirtæki til að meta skilaverð eignasafns Landsbanka Íslands hf. Þetta verði gert í samráði við formenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi. Gunnar Bragi hefur lagt fram þingsályktunartillögu um þetta á Alþingi.

Gunnar Bragi segir að í þeim tilgangi að skýra betur stöðuna sem uppi er og til þess að íslenska þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun í Icesave-deilunni þurfi að tryggja að sem mest af upplýsingum liggi fyrir og þær séu aðgengilegar öllum. Gunnar Bragi segir að einn af þeim þáttum sem nauðsynlegt sé að skoða nánar og ekki hafi verið lagt mat á með sjálfstæðum hætti af opinberum aðilum sé áætlað skilaverð eigna Landsbanka Íslands hf. Þar hafi einungis verið stuðst við mat skilanefndar bankans.

Gunnar Bragi bendir á að endanlegt skilaverð eignasafns Landsbankans skipti hvað mestu þegar rætt sé um hversu háar fjárhæðir af endurgreiðslu til breska og hollenska ríkisins kunni að lenda á íslenskum skattgreiðendum. Jafnframt þyrfti að leggja mat á hvenær útgreiðslur helstu eigna gætu hafist.

Gunnar Bragi telur að nokkur fyrirtæki geti tekist á við þetta verkefni, svo sem McKinsey & Company og Oliver Wyman. Mikilvægt sé að samráð verði haft við alla stjórnmálaflokka um val á sérfræðingum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×