Viðskipti innlent

Þróun á gengi krónunnar ræðst af Icesave

Gengi krónunnar hefur veikst um 3,8% frá áramótum. Framhaldið veltur nokkuð á niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave. Verði niðurstaðan sú að þjóðin hafni samningnum er viðbúið að Seðlabankinn vilji auka á gjaldeyrissöfnun landsins. Hann mun þá líklega bregðast við með því að selja krónur og kaupa gjaldeyri á millibankamarkaði og þannig veikja krónuna.

Þetta segir í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Þar kemur fram að í framhaldinu ætti afgangur af viðskiptum að aukast sökum óhagstæðari innflutnings og hagstæðari útflutnings og bankinn gæti því aukið gjaldeyriskaup enn frekar. Á móti gæti það haft áhrif að skil á gjaldeyrisstekjum til landsins myndu versna og ásókn aðila í að koma fé úr landi gæti aukist en hvoru tveggja yrði drifið áfram af aukinni óvissu.

Allavega er ljóst að verði samningunum hafnað munu stjórnvöld þurfa að endurskoða allar efnahagsáætlanir og líklega fara aðra leiðir til að koma framkvæmdum af stað. Ef niðurstaðan verður sú að samningurinn verður samþykktur telja margir að draga munu verulega úr óvissu og lánamöguleikar innlendra aðila á erlendri grund opnast.

Ekki er víst að málið sé svo einfalt, enda margir aðilar illa brenndir af viðskiptum við Íslendinga og líklegast er að lánveitendur horfi fremur til stöðu viðkomandi aðila og þeirra verkefna sem í hlut eiga fremur en stöðu ríkissjóðs. Því til stuðnings má nefna endurfjármögnun Marels undir lok síðasta árs sem fékkst á mjög hagstæðum kjörum og eins risavaxna endurfjármögnun Bakkavarar á dögunum, að því er segir í Markaðsfréttunum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×