Innlent

Íslensku þjóðgildin eru jafnrétti og frelsi

„Gaman að sjá fólk hugsa um grunngildi samfélagsins. “fréttablaðið/arnþór
„Gaman að sjá fólk hugsa um grunngildi samfélagsins. “fréttablaðið/arnþór

„Áhugavert er að sömu gildi eru fundarmönnum efst í huga á tveimur þjóðfundum,“ segir Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, sem greint hefur niðurstöður þjóðfundanna tveggja. „Ef til vill má kalla þau hin íslensku þjóðgildi sem ríkja um þessar mundir.“

Gunnar nefnir að á báðum þjóðfundunum hafi grunngildin verið meðal annarra jafnrétti, lýðræði, réttlæti, virðing, heiðarleiki, frelsi, mannréttindi og ábyrgð.

„Ég bjóst við að það yrði meiri munur því núna var spurt um grunngildi stjórnarskrárinnar,“ segir Gunnar og bætir við að niðurstöðurnar staðfesti gildin í þjóðarvitundinni.

Hann segir að það hafi þó komið á óvart að fjölskyldan var hátt skrifuð á þjóðfundinum 2009 en ekki nú. „Það er í raun mjög umhugsunarvert að hornsteinn samfélagsins greinist svo illa. Nærtækasta skýringin er að þegar spurt er um þau gildi sem eigi að vera að leiðarljós við gerð nýrrar stjórnarskrár þá leiti hugurinn út á við í átt til hins opinbera en ekki inn í einkalíf fjölskyldunnar.“

Gunnar segir þjóðfundinn mikilvægan því hann komi umræðu um grunngildi samfélagsins aftur í gang. „Það er ótrúlega gaman að sjá fólk hugsa um grunngildi samfélagsins hér og þar.“- mmf
Fleiri fréttir

Sjá meira