Innlent

Sakaður um pyntingar - dæmdur mánuði áður fyrir hrottaskap

Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að ryðjast inn á heimili manns, sparka ítrekað í höfuð hans og stela fartölvu fórnalambsins.
Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að ryðjast inn á heimili manns, sparka ítrekað í höfuð hans og stela fartölvu fórnalambsins.

Einn mannanna, sem var handtekinn vegna frelsissviptingar í Reykjanesbæ rétt eftir páska, var dæmdur aðeins mánuði áður fyrir hrottalega líkamsárás þegar hann ruddist inn á heimili manns ásamt öðrum manni í Keflavík.

Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum á hann, ásamt nokkrum öðrum mönnum, að hafa rænt manni frá heimili sínu nú rétt eftir páska. Þar eiga þeir að hafa haldið manninum nauðugum í heimahúsi um nóttina og sætti hann þar hótunum, ýmsum líkamsmeiðingum og pyntingum.

Manninum var haldið áfram nauðugum fram eftir degi og mun meðal annars hafa verið þvingaður til að stela verkfærakistunni. Ástæða verknaðarins mun hafa verið innheimta á fíkniefnaskuld.

Aðeins mánuði áður en umræddur maður var handtekinn fyrir þennan glæp var hann dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir gróft ofbeldisbrot.

Þar var hann dæmdur fyrir að ryðjast í heimildarleysi inn á heimili manns að Sólvallagötu í Reykjanesbæ. Maðurinn sló húsráðanda ítrekað hnefahöggum í höfuð og bringu, íklæddur hönskum úr hörðu efni, þannig að fórnarlambið rotaðist og féll í gólfið.

Réðust mennirnir báðir að honum með höggum og spörkum í höfuð og líkama en höfðu síðan á brott með sér Apple MacBook fartölvu að verðmæti um 120 þúsund krónur.

6 menn voru handteknir vegna rannsóknar á frelsissviptingunni eftir páska og húsleitir gerðar á nokkrum stöðum. Við húsleitirnar fannst meðal annars ætlað þýfi.

Þrír mannanna voru úrskurðaðir í gæsluvarðahald allt til 16. apríl en þremur var sleppt að loknum yfirheyrslum.

Gæsluvarðhaldi var síðan framlengt um viku yfir einum mannanna. Sá sem var dæmdur fyrir um mánuði síðan hefur hafið afplánun á fyrra broti sínu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×