Innlent

Vill ljúka aðildaviðræðum á tveimur mánuðum

Ögmundur Jónasson vill að það verði kosið um ESB eftir um tvo mánuði.
Ögmundur Jónasson vill að það verði kosið um ESB eftir um tvo mánuði.

Ögmundur Jónasson dóms-, mannréttindamála og samgönguráðherra vill ljúka samningaviðræðum Íslands við Evrópusambandið á tveimur mánuðum og bera niðurstöðuna síðan undir þjóðina.

Í grein í Morgunblaðinu í dag segir Ögmundur þetta mögulegt með því að hætta því sem hann kallar aðlögunarferli og taka upp raunverulegar viðræður.

Ögmundur segir að Vinstri grænir hafi reynt að telja Samfylkinguna á það í stjórnarmyndunarviðræðum að þjóðin greiddi atkvæði um hvort fara skyldi í aðildarviðræður áður en slíkar viðræður hæfust.

Samfylkingin hafi ekki fallist á það. Eftir að viðræður Íslands og Evrópusambandsins hófust, hafi komið í ljós að um aðlögun að sambandinu sé að ræða. Endalausir rýnihópar séu að störfum og Evrópusambandið beri í Íslendinga fé til að liðka fyrir í viðræðunum.

Íslendingum sé boðið í endalausar kynnisferðir til Brussel með góðum viðgjörningi. Honum sé löngu orðið ljóst að Evrópusambandið vilji Ísland.

Ögmundur telur samningaferlið vísvitandi haft langt til að laða Íslendinga til fylgislags við sambandið. Grein Ögmundar birtist skömmu eftir að rúmlega hundrað félags- og stuðningsmenn Vinstri grænna skoruðu á forystu flokksins að fara að stefnu hans í evrópumálum, en í þeim hópi eru margir í pólitísku baklandi Ögmundar, sem telja að núverandi forysta flokksins hafi svikið stefnu hans.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.