Innlent

Líkur á að ferðaáætlanir þúsunda manna raskist

Líkur eru á að tveimur stærstu flugvöllum landsins í Keflavík og Reykjavík verði lokað í fyrramálið vegna öskufalls. Þar með raskast ferðaáætlanir þúsunda manna í millilanda- og innanlandsflugi. Flugvellirnir á Egilsstöðum og á Akureyri taka við millilandaflugi og Icelandair flytur miðstöð sína til Glasgow í Skotlandi.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Flugstoða, segir allar líkur á því að Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur verði lokaðir á morgun ef miðað sé við öskufallsspár, en samkvæmt þeim verður öskuský yfir flugvellinum klukkan sex í fyrramálið.

„Við vinnum eftir því hvernig verðurspáin er og öskufallspá. Slíkar spár eru unnar á sex tíma fresti. Við sjáum í kvöld hvernig staðan verður," segir Hjördís.

Þó lokað verði í Keflavík og Reykjavík þýðir það ekki að flug muni alveg liggja niðri. Alþjóðaflugvellir eru á Akureyri og Egilsstöðum og allar líkur eru á því að þeir haldist opnir.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að í ljósi þessa frétta hafi verið tekin ákvörðun um að flýta öllum flugum frá landinu í fyrramálið til klukkan fimm. Öðrum flugum frá landinu síðdegis á morgun hefur verið aflýst og ný flug sett upp í staðinn.

Glagsow verður gerð að nokkurskonar tengistöð og munu þær vélar sem fljúga út í fyrramálið lenda þar, en sérstök flug verða síðan á milli Glasgow og Akureyrar. Þær upplýsingar fengust frá Iceland Express að morgunflugi þeirra hefur einnig verið flýtt til klukkan fimm og síðan verður staðan metin á morgun.

Hjördís hvetur alla til þess að fylgjast vel með á heimasíðum flugfélaganna og Flugstoða í kvöld.




Tengdar fréttir

Flugvöllum líklega lokað á morgun

Allar líkur eru á að Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur lokist í fyrramálið vegna öskustróks frá Eyfjallajökli en spáð er suðaustan átt á morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×