Innlent

Jóhanna hefur efasemdir um ákærur gegn fyrrverandi ráðherrum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur efasemdir um það að rétt sé að ákæra ráðherrana fjóra sem meirihluti Atlanefndarinnar svokölluðu leggur til að ákærðir verði fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð. Samkvæmt tillögunum verða ráðherrarnir ákærðir fyrir vanrækslu í starfi í aðdraganda að bankahruninu.

Jóhanna sagði í umræðum á Alþingi í dag að á þeim tíma sem ráðherrarnir störfuðu í embættum sínum hafi ráðherrarnir ekki getað komið í veg fyrir hrun fjármálakerfisins. Ítarlegri rannsókn hefði átt að fara fram á meintri vanrækslu þeirra heldur en að raun ber vitni.

Eftir að þeirri umræðu sem nú er í gangi um þingsályktunartillögu Atlanefndar um ákærur gegn ráðherrunum fjórum er lokið mun málið fara í nefnd áður en hún verður tekin til seinni umræðu á Alþingi. Í ræðu sinni hvatti Jóhanna til þess að við vinnu nefndarinnar verði ráðherrunum fjórum gefinn kostur á því að koma andmælum betur á framfæri.

Þeir fyrrverandi ráðherrar sem meirihluti Atlanefndarinnar leggur til að verði ákærðir eru Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson. Minnihluti nefndarinnar telur að ákæra eigi Geir, Ingibjörgu og Árna en ekki Björgvin.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×