Innlent

Grunnskólabörn með rykgrímur

Grunnskólabörn á Hvolsvelli þurfa að bera rykgrímur til að verja sig fyrir öskunni úr Eyjafjallajökli sem nú er tekin að fara yfir þéttari byggðir. Almannavarnir vara foreldra og skólayfirvöld við því að leyfa börnum að vera úti að leik á meðan öskufall er.

Aska féll innst í Fljótshlíð í nótt og í morgun og þótt ekki sé farið að gæta hennar á Hvolsvelli og annar staðar í nágrenni eldstöðvanna er ekki talið óhætt að börn séu úti óvarin.

Almannavarnir beindu þeim tilælum til stjórnenda í Hvolsskóla að börn yrðu innandyra í dag. Færu þau út fyrir hússins dyr ættu þau að bera rykgrímur.

Aska er frábrugðin venjulegu ryki. Hún er kristölluð og hvöss sem leiðir til þess að hún rispar og sverfur það sem hún fellur á. Á síðu Umhverfisstofunnar má finna leiðbeiningar um viðbúnað á meðan hætta er vegna öskufalls.

Þar kemur meðal annars fram að "Langtímaáhrif „nýrrar" gosösku á heilsufar manna eru lítt þekkt. Með tilliti til smárra agna í þeirri gosösku sem þegar hefur myndast er mikilvægt að forðast að anda henni að sér."

Börnin í Hvolsskóla þurftu því að sitja inni í dag. Þau segja ýmsa kosti við gosið, vinir úr sveitum fái oftar að gista nú þar sem rýmingar hafa verið á svæðinu þegar hætta steðjar að. Það sé fremur skemmtilegt og spennandi. Þau vona þó að látunum fari að linna enda séu börnin úr sveitinni, sérstaklega undan Eyjafjöllum orðin langþreytt á ástandinu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×