Fótbolti

Atli og Jóhannes að fá nýja meðlimi í bræðraklúbbinn á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Milito átti stórleik í fyrri leiknum.
Diego Milito átti stórleik í fyrri leiknum. Mynd/AFP

Argentínsku bræðurnir Diego og Gabriel Milito verða í eldlínunni á morgun þegar lið þeirra, Internazionale og Barcelona, mætast í seinni leik sínum í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Þeir hafa mæst áður inn á vellinum en þetta yrði í fyrsta sinn sem þeir léku gegn hvorum öðrum í Evrópuleik.

Diego átti stórleik í fyrri leiknum þegar hann skoraði eitt mark og lagði upp hin tvö í 3-1 sigri Inter en Gabriel Milito sat þá á bekknum hjá Barcelona. Gabriel kemur væntanlega inn í miðvarðarstöðuna í leiknum á morgun þar sem að Carles Puyol tekur út leikbann.

Spili þeir leikinn á morgun verða þeir aðeins fjórðu bræðurnir sem mætast í Evrópukeppni á vegum UEFA en þeir fyrstu til að gera það voru Íslendingarnir Atli og Jóhannes Eðvaldsson þegar Valur og Celtic mættust á Laugardalsvellinum 16. september 1975.

Jóhannes Eðvaldsson var fyrirliði Celtic í leiknum en liðið vann Val 2-0. Jóhannes fékk möguleika á að skora á 70. mínútu en lét þá Sigurð Dagsson, markvörð Vals verja frá sér endurtekna vítaspyrnu en hann hafði skotið yfir úr þeirri fyrri. Celtic vann seinni leikinn 7-0 og skoraði Jóhannes þá fyrsta mark leiksins á 7. mínútu

Síðan þá hafa tveir bræður bæst í hópinn. Ronald og Erwin Koeman mættust í leik PSV og Mechelen í leik Evrópumeistara meistaraliði og Evrópumeistara bikarhafa árið 1988 og fyrr í vetur mættust norsku bræðurnir John Arne og Bjørn Helge Riise í leik Roma og Fulham í Evrópudeildinni.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.