Innlent

Endurskoða þarf verklag ríkisstjórnarinnar

Í viðtali Sjónvarpið tók Þorgerði Katrínu tali í þinghúsinu í gær. fréttablaðið/stefán
Í viðtali Sjónvarpið tók Þorgerði Katrínu tali í þinghúsinu í gær. fréttablaðið/stefán

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi menntamálaráðherra, telur að athuga þurfi hvort rétt sé að viðhalda því fyrirkomulagi að ríkisstjórn Íslands sé ekki fjölskipað stjórnvald. Hún telur að tryggja þurfi að í stórum málum verði ríkisstjórn öll upplýst og meðvituð um ábyrgð sína.

Þorgerður telur jafnframt að samráðsferli ráðherra þurfi að vera í fastari skorðum en nú er og að koma þurfi í veg fyrir að „pólitískir duttlungar og hentisemi geti ráðið för í stórum og þýðingarmiklum hagsmunamálum lands og þjóðar“.

Þorgerður lætur þessar skoðanir í ljós í bréfi til þingmannanefndar undir formennsku Atla Gíslasonar. Ráðherrum í ríkisstjórnum Geirs H. Haarde gafst færi á að senda nefndinni athugasemdir eða upplýsingar.

Þorgerður settist á þing á ný í gær eftir leyfi sem hún tók sér í framhaldi af útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Snýr hún aftur í kjölfar útkomu skýrslu þingmannanefndarinnar.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar var einkum fjallað um Þorgerði í tengslum við há bankalán eiginmanns hennar. Í engu er vikið að þeim málum í skýrslu þingmannanefndarinnar. - bþs



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×