Innlent

Segir augljóst að ekki sé hægt að reiða sig á Ísland

Brjánn Jónasson skrifar
Wouter Bos
Wouter Bos
Það er algerlega óásættanlegt ætli íslensk stjórnvöld ekki að standa við skuldbindingar sínar, segir talsmaður hollenska fjármálaráðuneytisins, spurður um viðbrögð við synjun forsetans á Icesave-lögunum.

Haft var eftir Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, í vefútgáfu dagblaðsins de Volkskrant að nú sé ljóst að augljóst sé að ekki sé hægt að reiða sig á Ísland. Hollendingar ættu í framhaldinu að koma því á framfæri við önnur Evrópusambandslönd að mögulega væri rétt að endurskoða aðild Íslands að Evrópska efnahagssamningnum.

Ákvörðun forsetans veldur stjórnvöldum miklum vonbrigðum, og í framhaldinu verður rætt við íslensk stjórnvöld um framhald málsins, segir talsmaður hollenska fjármálaráðuneytisins.

Í sama streng tók talsmaður breska fjármálaráðuneytisins. Þarlend stjórnvöld ætla einnig að vera í sambandi við íslensk stjórnvöld áður en ákveðið verður hvernig brugðist verður við. Áfram verði unnið með hollenskum stjórnvöldum og innan Evrópusambandsins að lausn málsins.

Engin viðbrögð bárust frá Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, í gær. Þingkosningar eru fyrirhugaðar bæði í Bretlandi og Hollandi á árinu. Kosningabaráttan er þegar hafin í Bretlandi fyrir kosningar í vor, en reiknað er með kosningum í haust eða snemma næsta vetur í Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×