Innlent

Jóhanna sagði að Jón Sigurðsson væri frá Dýrafirði - myndband

Boði Logason skrifar
„Hún veit náttúrulega að Hrafnseyri er við Arnarfjörð en ekki Dýrafjörð, ég trúi ekki öðru. Ég held að það viti nú eiginlega allir, allavega þeir sem eru komnir á hennar aldur," segir Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur.

Í ræðu sinni í morgun sagði Jóhanna Sigurðardóttir: „Á næsta ári munum við minnast þess að 200 ár verða liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar, frá Hrafnseyri við Dýrafjörð, sem var einn helsti baráttumaður okkar Íslendinga fyrir sjálfstæði."

Eins og flestum er kunnugt er Hrafnseyri við Arnarfjörð en ekki Dýrafjörð. Guðjón telur að að svona geti gerst sjá fólki. „Það getur verið að hún hafi verið með hugann við Dýrafjörð út af einhverju öðru og svo skolast þetta til í kollinum. Ég hef enga trú á því að hún viti ekki betur en þetta," segir Guðjón.

Hallgrímur Sveinsson, sem bjó í 40 ár á Hrafnseyri við Arnarfjörð og stofnaði meðal annars safn tileinkað sögu Jóns Sigurðssonar, segir að svona mismæli geti komið fyrir alla. „En þetta er ákaflega óheppilegt og leiðinlegt að forsætisráðherra skyldi gera það á þessum degi. Hún var með Hrafnseyri rétt, en við Dýrafjörð... það er náttúrlega leiðinlegt. Ég hélt nú að svona ræður hjá ráðherrum væru lesnar yfir," segir Hallgrímur.

„Hún leiðréttir þetta eflaust."

Hægt er að sjá brotið úr ræðu Jóhönnu hér að ofan.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×