Lífið

Þýsk fjölskylduþáttaröð um ævintýraeyjuna Ísland

Willi og strokkur Willi Weitzel nýtur mikilla vinsælda í Þýskalandi og er margverðlaunaður.
Willi og strokkur Willi Weitzel nýtur mikilla vinsælda í Þýskalandi og er margverðlaunaður.

„Willi segir ekki eitt orð um Ice-save eða fjármálakrísur," segir framleiðandinn Heimir Jónasson.

Framleiðslufyrirtæki Heimis, Icelandic Cowboys Entertainment, hefur nýlokið framleiðslu á fimm þátta röð um Ísland ásamt þýskum framleiðendum. Þættirnir fjalla um ævintýraeyjuna Ísland og bera yfirskriftina „Leiðangurinn til Íslands". Stjarna þáttanna heitir Willi Weitzel og er að sögn Heimis hinn þýski Sveppi; margverðlaunuð barnastjarna sem nýtur mikilla vinsælda. Þættirnir voru frumsýndir á sjónvarpsstöðvunum Kinderkanal og ARD og ferðast í kjölfarið um sjónvarpsstöðvar þýska málsvæðisins.

„Þættirnir eru gott dæmi um mjög vandað sjónvarpsefni fyrir alla fjölskylduna og eru bæði fræðandi og hafa mikið skemmtanagildi," segir Heimir og bætir við að verið sé að skoða að gera 90 mínútna kvikmyndaútgáfu af þáttunum. „Þetta eru eins konar ævintýra- og vísindaferðaþættir. Willi ferðast um framandi slóðir, spyr spurninga sem fólk þyrstir í að fá svör við, eins og um það hvers vegna eldgos séu svo tíð á Íslandi eða af hverju íslenska vatnið sé svona gott. Willi vill fá að vita hvernig Íslendingar hita upp húsin sín, skoðar hvali, hittir huldufólk, fer á hestbak og baðar sig úti í guðsgrænni náttúrunni. Svo gerir hann vísindatilraunir á einfaldan hátt sem útskýra hvernig veröldin virkar."

Þáttur Willa hefur verið sýndur í þýsku sjónvarpi í átta ár og var valinn sjónvarpsþáttur ársins í sínum flokki á Adolf-Grimme-Preis sjónvarpsverðlaunahátíðinni í Þýskalandi á dögunum. Heimir tók að sér hlutverk í þáttunum á Íslandi og leikur besta vin Willa. Hann er sem sagt fyrir Willa það sem Villi er fyrir Sveppa, ef svo má að orði komast. Hann segist ekki geta dæmt um frammistöðu sína, en hafa skemmt sér mjög vel í hlutverkinu. „Þeir orðuðu við mig að gera nokkra þætti með þeim úti," segir Heimir og bætir við að það myndi hann gera til gamans.

„Það myndi örugglega skapa mér fullt af góðum samböndum til að ná fleiri verkefnum til Íslands."

Heimir efast ekki um að þættirnir verði góð landkynning og laði þýska, svissneska og austurríska ferðamenn að í stórum stíl. „Með sérlega jákvæðri umfjöllun um allar þær gersemar og ævintýri sem Ísland hefur upp á að bjóða," segir hann að lokum.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×