Innlent

Naumlega tókst að senda fisk til Liège

Flugfragt Útflytjendur ferskra fiskafurða eru vanir því að þurfa að bregðast við truflunum á flugi vegna veðurs.
Flugfragt Útflytjendur ferskra fiskafurða eru vanir því að þurfa að bregðast við truflunum á flugi vegna veðurs.

Í gærmorgun tókst að senda fragtvél til Liège í Belgíu með 37 tonn af fiski af þeim um 50 tonnum sem til stóð að flytja út. Ekki var hins vegar hægt að millilenda í Englandi, eins og venja er, heldur þurfti að flytja átta tonn með flutningabílum frá Liège til kaupenda á Bretlandseyjum.

Íslenskur sjávarútvegur á mikið undir því að flugsamgöngur komist sem fyrst í eðlilegt horf. Um 350 tonn af ferskum fiskafurðum fara í flugfragt frá landinu í hverri viku.

„Við erum ýmsu vanir í þessum bransa,“ segir Svavar Þór Guðmundsson, forstjóri Sæmarks, eins stærsta útflytjanda landsins á ferskum fiski. Hann segir ekki óvenjulegt að fragtflug raskist vegna veðurs og að leysa þurfi ýmis vandamál frá degi til dags. Nokkurra daga röskun af þessu tagi sé ekki stórmál. „Eins og er getum við brosað út í annað,“ segir Svavar.

Hjá Icelandair Cargo fengust þær upplýsingar að héðan fari níu fragt­vélar í viku og er fiskur um 95 prósent af útfluttri fragt.

Einnig er talsvert flutt út með farþegaflugi, þar á meðal í vélum sem fóru til Amsterdam og Frankfurt í gærmorgun og til Ameríku en flug þangað hélt áætlun síðdegis í gær. - pg



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×