Innlent

Lítið hægt að segja um gosið

„Um framtíð gossins er lítið hægt að segja," sagði Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlis­fræði við HÍ, í gærdag. Fyrst og fremst byggi jarðvísindamenn á reynslu þegar þeir spái fyrir um gos og nánast engin reynsla sé af gosi í Eyjafjallajökli. Eina gosið sem talsvert er vitað um sé gosið 1821. „Og það er takmarkað sem hægt er að læra af einu gosi. Eldfjall er því marki brennt að það breytist í gosum og næsta gos verður í breyttu eldfjalli."

Gosið árið 1821 stóð í meira en ár og það var talsvert öskufall í því. Það hætti öðru hverju og byrjaði svo aftur. Páll segir mjög líklegt að gosið standi töluvert lengur, það hafi til dæmis færst í aukana í gærmorgun. Hins vegar sé þekkt að gos hætti skyndilega.

„En þetta er hluti af lengri atburðarás sem hófst síðasta sumar. Ef það hættir skyndilega á þessum stað er líklegt að það taki sig upp annars staðar." Páll segir að gosið úr eldstöðinni undir Eyjafjallajökli hafi farið úr heppilegustu stöðu, eina staðnum þar sem er íslaust á þessum slóðum, í þá óheppilegustu, þar sem íshellan er þykkust og þar með mest hætta á hlaupi og von á mestu öskufalli.- sbt









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×