Lífið

Gillz hannar símaskrána

Á meðfylgjandi myndum má sjá Egil „Gillz" Einarsson og Sigríði Margréti Oddsdóttur skrifa undir undir samkomulag Já og Egils um að Egill verði meðhöfundur Símaskrárinnar 2011, sem kemur út í maí á næsta ári. Í samningnum felst að Egill muni hafa umsjón með bæði forsíðu og baksíðu Símaskrárinnar auk þess að taka þátt í öðrum efnistökum bókarinnar.

Bókasamningarnir gerast varla stærri en þessi, því með honum tryggir Egill sér dreifingu í 150.000 eintökum. Símaskráin er stærsta einstaka bókaútgáfa hvers árs og sýna kannanir að hún berst inn á meirihluta heimila á landinu og er notuð af langstærstum hluta landsmanna. Umsókn Egils um aðgang að Rithöfundasambandinu hefur verið nokkuð í fjölmiðlum síðustu daga og má búast við að þessi nýjasti samningur styrki umsóknina umtalsvert, enda ekki algengt að rithöfundar fái svo umfangsmikla dreifingu.

„Ég fékk hroll í síðustu viku þegar það kom í fréttunum að Íslendingar væru með feitustu þjóðum í heimi. Þetta gengur ekki lengur og ég lít á það sem persónulegt verkefni mitt að gera eitthvað í þessu. Ég þarf að ná til allra og hvar er það hægt annars staðar en í Símaskránni - þar sem allir Íslendingar eru? Þetta er feitasti bókasamningurinn á markaðnum, en það er líka eina fitan sem ég vil sjá. Ég ætla að nota þetta tækifæri til að koma íslensku þjóðinni á lappirnar og kominn tími til," segir Egill Einarsson.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×