Innlent

Ákvæði um stjórnlagaþing fellt út

Heimir Már Pétursson skrifar
Stjórnarflokkarnir og Framsóknarflokkurinn létu undan hótunum Sjálfstæðismanna um að tala um stjórnarskrána fram að kosningum og féllust á að fella ákvæði um stjórnlagaþing út úr stjórnlagafrumvarpinu á Alþingi í dag.

Formenn þingflokka komu til fundar með forseta Alþingis í hádeginu í dag þar sem reynt var að ná samkomulagi um afgreiðslu mála fyrir þingrof en án árangurs. Að loknum þeim fundi stefndi því allt í áframhaldandi ræður af hálfu Sjálfstæðismanna í stjórnarskrármálinu. Björn Bjarnason vísaði til nefndarálits meirihlutans á Alþingi um að með stjórnlagaþingi væri verið að verða við þeirri kröfu í samfélaginu að færa stjórnarskrárvaldið um tíma frá Alþingi. Björn sagði þetta niðurlægjandi fyrir Alþingi.

Fljótlega eftir þessa ræðu Björns funduðu formenn þingflokkka aftur með forseta Alþingis þar sem Framsóknarmenn gáfu eftir kröfu sína um að ákvæði um stjórnlagaþing yrði áfram í frumvarpinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins segir að stjórnlagaþingið verði aftur tekið upp á Alþingi eftir kosningar.

Þegar Framsóknarmenn hafa gefið þetta eftir standa enn eftir ákvæði um hvernig breyta á stjórnarskrá í framtíðinni, um þjóðaratkvæðagreiðslur og svo um auðlindir í þjóðareign, og spurning hvort gefa þurfi meira eftir til að fá sjálfstæðismenn til að láta af ræðum sínum um stjórnlagafrumvarpið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×