Innlent

Engin breyting á viðhorfi til aðildarumsóknar

Nánast engin breyting hefur orðið á afstöðu almennings gagnvart því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu frá könnun Fréttablaðsins í febrúar. 45,5 prósent segjast nú vilja að Ísland sæki um aðild, á meðan 54,5 eru því mótfallin. Í lok febrúar studdu 46,1 prósent að Ísland myndi sækja um aðild að Evrópusambandinu, en 53,9 prósent voru því andvíg.

Afstaða karla og kvenna er nokkuð jöfn. 50,9 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu er fylgjandi umsókn, en 37,5 prósent íbúa á landsbyggðinni. Stuðningur höfuðborgarbúa hefur dalað um fjögur prósentustig, en aukist á landsbyggðinni um 3,5 prósentustig. Minnstur er stuðningurinn við umsókn hjá kjósendum Sjálfstæðisflokks, 26,5 prósent.

Þá segjast 31,9 prósent kjósenda framsóknarmanna styðja aðild, 38,2 prósent kjósenda Vinstri grænna og 80,6 prósent kjósenda Samfylkingar. 42,9 prósent þeirra sem ekki gefa upp stuðning við flokk styðja aðildarumsókn.

Hringt var í 800 manns 11. mars og skiptust svarendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu. Spurt var; Á Ísland að sækja um aðild að Evrópusambandinu? 81,1 prósent tók afstöðu til spurningarinnar. - ss

Fleiri fréttir

Sjá meira