Innlent

Evrópusambandið getur breytt löggjöf á sviði fiskimála

Stefán Már Stefánsson
Stefán Már Stefánsson

Stefán Már Stefánsson prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands segir að evrópusambandið geti breytt löggjöf á sviði fiskimála að vild með auknum meirihluta. Þetta var meðal þess sem kom fram í hádegisverðarerindi Stefáns á vegum Lögfræðingafélags Íslands í vikunni. Þetta kemur fram á fréttavef Landssambands íslenskra útvegsmanna í dag.

Í erindi sínu rakti Stefán Már grunnþætti hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, benti á ýmsar mótsagnir í reglugerðarverkinu og vakti jafnframt athygli á því að í afleiddri löggjöf sambandsins fælust mjög víðækar heimildir.

Hann kom inn á svokallað kvótahopp, sem Bretar urðu t.d. illa fyrir barðinu á, og sagði í senn erfitt og óljóst hvernig girða mætti fyrir slíkar uppákomur.

Stefán fór yfir reynslu Norðmanna í aðildarviðræðum 1994 og sagði þá hvorki hafa komist lönd eða strönd með sínar kröfur. Færi svo að Ísland sækti um aðild sagði Stefán Már það grundvallaratriði að samningsmarkmið væru skýr frá upphafi.

Annars væri hætta á að samningamenn sneru heim með loðnar yfirlýsingar á borð, rétt eins og gerðist í Noregi. Þar höfnuðu Norðmenn aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×