Viðskipti erlent

Bankarisi í algjörum mínus

Kenneth D. Lewis, forstjóri Bank of America.
Kenneth D. Lewis, forstjóri Bank of America. Mynd/AFP

Bank of America, langstærsti banki Bandaríkjanna, tæpaði 1,8 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði 230 milljarða króna, á fjórða og síðasta ársfjórðungi nýliðins árs. Þetta er fyrsta tap bankans í um átján ár.

Til samanburðar nam hagnaður bankans ári fyrr 268 milljónum dala.

Hagnaðurinn nam fimm sentum á hlut þá en tapið nú nemur 48 sentum á hlut.

Tekjur bankans í fyrra námu 15,98 milljörðum dala, sem er nítján prósenta aukning á milli ára.

Helsta ástæðan fyrir taprekstrinum er þungur róður eftir stórar yfirtökur á síðasta ári. Bankinn lauk yfirtöku á fasteignalánveitandanum Countrywide Financial um mitt síðasta ár auk þess að samþykkja yfirtöku á fjárfestingabankanum Merrill Lynch í hamfaraveðri á fjármálamörkuðum í september. Kaupin gengu í gegn um áramótin.

Svo þungur er róðurinn að bankinn var að sækja sér 138 milljarða dala fé úr sérstökum neyðarsjóði bandarískra stjórnvalda fyrir fjármálafyrirtæki í vandræðum. Í nótt var svo tilkynnt að ríkið kaupir hlut í bankanum fyrir 20 milljarða dala en gengur í ábyrgðir á eignum fyrir afganginn.

Þetta er annað sinn sem bankinn sækir í neyðarsjóðinn og þykir farið að hitna undir Kenneth D. Lewis, forstjóra, vegna málsins.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×