Innlent

Stiglitz fundar með ráðherrum í dag

Krónan hjálpað Ef gengi krónunnar hefði ekki gefið eftir hefði áfallið geta orðið enn meira segir Joseph Stiglitz.
Krónan hjálpað Ef gengi krónunnar hefði ekki gefið eftir hefði áfallið geta orðið enn meira segir Joseph Stiglitz.

Bandaríski hagfræðingurinn Joseph Stiglitz mun hitta nokkra ráðherra úr ríkisstjórn Íslands seinni part dags í dag til að ræða um efnahagsástandið.

Stiglitz er prófessor við Columbia-háskóla í New York og fékk Nóbelsverðlaun árið 2001. Hann gegndi ýmsum ábyrgðarstöðum undir stjórn Clintons og hefur gefið út fjölda fræðirita. Hann mun halda fyrirlestur í Öskju í hádeginu í dag.

Stiglitz hefur verið mjög gagnrýninn á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í sjónvarpsþættinum Silfri Egils í gær sagði hann hins vegar að svo virtist sem sjóðurinn hefði lært af þeim mistökum sem hann gerði í Asíu og Argentínu.

Mikilvægt er að halda stýrivöxtunum háum og halda gjaldeyrishöftunum áfram meðan krónan er jafn veik og raun ber vitni, sagði Stiglitz í Silfrinu.

Hann segir það hafa komið sér vel fyrir Ísland að hafa krónuna á þessum erfiðu tímum. Lítil hagkerfi þurfi svigrúm, sérstaklega þegar stór áföll verða. Ef gengi krónunnar hefði ekki gefið eftir hefði ferðamannabransinn ekki gengið jafn vel og raunin hefur orðið, og atvinnuleysið orðið meira en ella.

Spurður hvort hann gæti hugsað sér að gerast ráðgjafi ríkisstjórnarinnar sagðist hann vissulega tilbúinn til að hjálpa eins og hann gæti.- kóp, bj





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×