Innlent

Ákvörðun um risavaxið gagnaver tekin í september

Magnús Már Guðmundsson skrifar
„En það verður auðvitað ekkert af þessu ef ekki fæst nein orka," segir forsvarsmaður Greenstone ehf. sem vill byggja risavaxið netþjónabú hér á landi. Mynd/Valgarður Gíslason
„En það verður auðvitað ekkert af þessu ef ekki fæst nein orka," segir forsvarsmaður Greenstone ehf. sem vill byggja risavaxið netþjónabú hér á landi. Mynd/Valgarður Gíslason
Ákvörðun um hvort að risavaxið gagnaver rísi á Íslandi verður tekin í september. Framkvæmdir geta hafist innan við þremur mánuðum eftir undirritun samkomulags þess efnis en áður þurfa stjórnvöld að tryggja verkefninu orku. Þetta segir forsvarmaður fyrirtækis sem vill reisa gagnaver hér á landi sem samsvarar átta knattspyrnuvöllum að stærð.

Í Morgunblaðinu var nýverið fullyrt að yfirgnæfandi líkur væru á því að Greenstone ehf, sem er í eigu íslenskra og erlendra aðila, muni byggja risavaxið 50-60 þúsund fermetra gagnaver á 128 hektara lóð á Blönduósi sem bæjarfélagið mun leggja starfseminni til. Talið er að þörf verði á rúmlega 2000 starfsmönnum á byggingartímanum. Þá gera áætlanir ráð fyrir að 120 manns muni starfa í gagnaverinu eftir að það tekur til starfa.

Ekki hægt án orku

Sveinn Óskar Sigurðsson, forsvarsmaður Greenstone hér á Íslandi., segir að ekki sé búið að ganga frá neinu samkomulagi og því sé frétt Morgunblaðsins ótímabær. Fáist aftur á móti orka telur Sveinn að verkefnið verði eitt það stærsta í heiminum af sinni tegund. „En það verður auðvitað ekkert af þessu ef ekki fæst nein orka."

Greenstone hefur sýnd Íslandi mikinn áhuga en fyrirtækið hefur unnið í rúm tvö ár á að finna hentugt svæði og viðskiptavini sem geti staðsett sig á Íslandi. Fjögur bæjarfélög þykja koma til greina fyrir hugsanlegt gagnaver; Egilsstaðir, Blönduós, Hafnarfjörður og Borgarbyggð.

Ísland markaðssett fyrir gagnaver

Sveinn segir að íslensk stjórnvöld hafi markaðssett landið um árabil sem ákjósanlegan stað fyrir gagnaver keyrt áfram með hreinni og endurnýjanlegri orku. Stjórnvöld verði að ríða á vaðið og nýta tækifærið. Gagnaversiðnaðurinn sé grænn og umhverfisvænni en annar iðnaður.

„Við höfum vissulega orðið vör við góðan vilja, sérstaklega í iðnaðarráðuneytinu, en það þarf að leysa orkuna úr læðingi því það er ekki hægt að gera þetta án hennar."



Talsvert flækjustig


„Flækjustigið í kerfinu er talsvert en við höfum trú á því að stjórnvöld muni leysa úr málinu," segir Sveinn aðspurður hvort ákvörðunarfælni yfirvalda tefji fyrir endanlegri ákvörðun um gagnaverið.

Fleiri fyrirtæki en Greenstone vilja reisa gagnaver á Íslandi. Á meðal þeirra eru Verne Holding og Titan Global.

Sveinn segir heilmikla eftirspurn vera eftir orku hér á landi, hvort heldur í græn verkefni eða önnur. Hann fullyrðir að um leið og Greenstone eða eitthvert annað fyrirtæki brjóti ísinn muni fleiri fylgja í kjölfarið. Það muni leiða til þess að vel launuðum störfum í tækniiðnaði fjölgi. Þá segir Sveinn að tilkoma gagnavers muni styrkja skóla og rannsóknarstofnanir. Reynslan hafi sýnt það erlendis.



Umsvifamikil starfsemi


Greenstone ehf. er í eigu íslenskra, bandarískra og hollenskra aðila. Sveinn segir að fyrirtækið hafi byggt yfir 700 byggingar í Bandaríkjunum sem tengist gagnaversiðnaðinum með einum eða öðrum hætti. Í Hollandi starfrækir fyrirtækið meðal annars 18 þúsund fermetra gagnaver sem hýsir eina stærstu leitarvél heims. Það er þrefalt minna en það gagnaver sem Greenstone hefur hug á að reisa hér á landi.


Tengdar fréttir

Risavaxið gagnaver hefði mikil jákvæð áhrif

Risavaxið gagnaver á Blönduósi myndi hafa heilmikil jákvæð áhrif fyrir bæjarfélagið, landshlutann sem og í endurreisn Íslands, að mati Arnars Þórs Sævarssonar, bæjarstjóra á Blönduósi. Hann segir sig og aðra forystumenn í bæjarfélaginu stíga varlega til jarðar í málinu. „Við lítum ekki svo á að þetta sé í hendi.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×