Innlent

Formgallar á tveimur framboðum

Kristján Már Unnarsson skrifar

Yfirkjörstjórnir í öllum kjördæmunum sex vegna komandi alþingiskosninga munu í dag úrskurða hvaða framboðslistar teljist gildir og hvort öðrum listum verði gefinn kostur á að bæta úr ágöllum.

Sjö listar bárust í öllum kjördæmum áður en framboðsfrestur rann út á hádegi í gær. Yfirkjörstjórnir funda í dag með umboðsmönnum framboðslistanna þar sem upplýst verður hvort framboðin teljist gild eða ekki. Við fyrstu yfirferð í gær komu í ljós formgallar á framboðum bæði Borgarahreyfingarinnar og Lýðræðishreyfingarinnar, og einnig minniháttar ágallar á framboðum fleiri lista í einhverjum kjördæmum.

Umboðsmenn listanna voru látnir vita strax í gær um ágallana og er hugsanlegt að þeim takist fyrir fundina í dag að bæta úr. Finnist þá enn gallar á framboðslistum gera kosningalög ráð fyrir að umboðsmönnum sé gefinn kostur á að leiðrétta þá og þeim veittur frestur í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa.

Ef gallar sem yfirkjörstjórn hefur bent á eru ekki leiðréttir innan tilsetts frests kveður hún upp úrskurð um hvort listi skuli fyrir það teljast ógildur. Úrskurði yfirkjörstjórnar má umboðsmaður skjóta til landskjörstjórnar en hún áformar fund á föstudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×