Viðskipti erlent

Innistæðutryggingar í bönkum hækka meir en tvöfalt

Þing Evrópusambandsins ákvað í dag að innistæðutryggingar í bönkum ESB ættu að hækka í 50.000 evra næsta sumar eða nær 9 milljónir kr.. Tryggingarnar nema nú rúmlega 20.000 evrum. Þessi ákvörðun mun einnig ná yfir EES-samninginn og gildir þá væntanlega hérlendis einnig næsta sumar.

Samkvæmt frétt um málið á vefsíðunni E24.no var mikill meirihluti þingfulltrúa meðmæltur þessari hækkun eða 556 talsins en aðeins 21 greiddi atkvæði á móti.

Samhliða þessu var Evrópuþingið og ráðherraráð ESB sammála um að þessar tryggingar ættu að nema 100.000 evrum eða rúmlega 17 milljónum kr. frá og með árinu 2011.

Jafnframt var ákveðið að þetta ætti að gilda um öll löndin innan ESB og að ekkert þeirra mætti vera með hærri tryggingar en sem nemur fyrrgreindum upphæðum.

Á E24.no segir að þetta séu slæmar fréttir fyrir Norðmenn því nú þegar eru innistæður þar í landi tryggðar fyrir 225.000 evrur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×