Lífið

Jólaþorpið á Thorsplani opnað

Jólaþorpið á Thorsplani í Hafnarfirði opnaði nú í dag. Ýmislegt í boði í þorpinu, handverk og hönnun, heimabakaðar kökur, sultur og annað góðgæti, handmáluð kerti og jólakúlur, dúkkuföt, myndlist, leirlist svo fátt eitt sé nefnt.

Ljósin á trénu frá vinarbæ Hafnarfjarðar í Frederiksberg sem stendur í miðju þorpinu verða tendruð kl. 17.00. Karlakórinn Þrestir syngja, fulltrúi frá Frederiksberg flytur kveðju og tendrar ljósin á trénu og séra Gunnþór Ingason flytur hugvekju. Að því loknu munu Grýla og synir hennar slá upp jólaballi í þorpinu þar sem dansað verður í kringum jólatréð. Við Flensborgarhöfnina verður kveikt á jólatrénu frá vinarbænum Cuxhaven kl. 15.00. Lúðrasveit Hafnarfjarðar leikur nokkur lög. Fulltrúi frá Cuxhaven flytur kveðju og tendrar ljósin á trénu. Börn frá leikskólanum Víðivöllum syngja og jólasveinar verða á vappi við höfnina. Kakó verður í boði á Kænunni

Alla opnunardaga verður fjölbreytt skemmtidagskrá á sviði Jólaþorpsins. Þar koma fram landsþekktir listamenn og má nefna Ragga Bjarna, Pál Óskar og hljómsveitina Buff. Á sunnudögum verður slegið upp úti-jólaballi í þorpinu. Þá verður sungið og trallað, sagðar sögur og gengið í kringum jólatréð. Á Þorláksmessukvöld verða síðan stórtónleikar í samstarfi við ABC barnahjálp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×