Viðskipti erlent

Asger Jensby skuldar FIH bankanum 7 milljarða króna

Asger Jensby skuldar FIH bankanum, sem nú er í eigu íslenska ríkisins, 350 milljónir danskra kr. eða um 7 milljarða kr.. Jensby er ein höfuðpersónan í IT Factory málinu í Danmörku sem er mesta fjármálahneyksli sem þar hefur komið upp árum saman.

Samkvæmt frétt í Politiken hefur Jensby tekist að sannfæra lánadrottna sína, FIH bankann og Danske Bank, um að styðja við bakið á sér áfram. Jensby er aðaleigandi JMI Invest sem aftur var aðaleigandi IT Factory sem nú er gjaldþrota og ljóst að vart fæst dönsk króna úr því þrotabúi. Jensby var stjórnarformaður IT Factory.

Skuld Jensby við Danske Bank er meiri en við FIH og höfðu bankarnir frest til að ganga að Jensby og gera hann upp þar til klukkan tvö í dag. "En þeir völdu að gera það ekki," segir Erik Ove fjölmiðlafulltrúi Jensby í samtali við Politiken.

Þetta þýðir að Jensby hefur getað sett fram trúverðuga áætlun um hvernig hann ætli að bregðst við tapi upp á hundruðir milljóna danskra kr. vegna gjaldþrots IT Factory.

Politiken segir að samningaviðræður bankanna og Jensby hafi vart orðið auðveldari við fregnir um að Jensby og eiginkona hans eru í rannsókn lögreglunnar vegna gruns um umfangsmikil skattsvik.

Nýjustu fréttir eru svo að Asger Jensby hafi sagt sig frá öllum stöðum í JMI Invest og að ný stjórn sé tekin við rekstri félagsins.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×