Erlent

Hélt dótturinni fanginni til að forða henni frá fíkni­efnum

Austurríkismaðurinn Josef Fritzl hélt dóttur sinni fanginni í kjallara í 24 ár til þess að koma í veg fyrir að hún ánetjaðist fíkniefnum. Þannig hljómuðu skýringar Fritzl þegar hann var leiddur fyrir dómara í Austurríki í dag. Hann sagði enn fremur að það hefði verið hrein óhöpp að hann barnaði hana sex sinnum á þessum tíma en samtals eignaðist dóttir hans sjö börn.

Eftir því sem austurríska blaði Kronen-Zeitung greinir frá viðurkenndi Fritzl fyrir dómara að hafa haft kynmök með dóttur sinni en hafnaði því að hafa lokkað hana niður í kjallara og haldið henni þar eins og skepnu. Sagði hann dótturina, Elisabeth, hafa verið baldið barn og hann óttast að hún yrði fíkniefnum að bráð.

Þá kom fram í dómssal að Fritzl hefði ákveðið að ala upp þrjú af börnunum sex vegna þess að þau hefðu haft of mikinn hávaða í kjallaranum. Þess vegna skildi hann eftir miða fyrir utan húsið sem átti að vera frá Elisabeth þar sem foreldrarnir voru beðnir um að annast börnin.

Með alvarlegar persónuleikaraskanir

Fyrsta barnið var skilið eftir á tröppunum árið 1993 en hin tvö á árunum 1994 og 1996. Eins og fram hefur komið hefur DNA-rannsókn staðfest að hann sé faðir barnanna. Lögregla lýsir honum stjórnsömum manni með óvenju mikla kynhvöt og samkvæmt afbrotasérfræðingum glímir hann við alvarlegar persónuleikaraskanir.

Fritzl var leiddur fyrir dómara þar sem fara átti fram á gæsluvarðhald yfir honum en yfirheyrslum lögreglu er langt því frá lokið. Meðal þess sem lögregla rannsakar frekar er hvernig eitt af börnunum sjö sem hann átti með dóttur sinni lést. Fritzel hefur viðurkennt að hafa brennt líkið og á hann hugsanlega yfir höfði sér dóm fyrir manndráp vegna þess að barnið fékk ekki nægilega umönnun eftir fæðingu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×