Lífið

Brigitte Bardot dæmd fyrir niðrandi ummæli um múslima

Bardot hefur lengi barist fyrir réttindum dýra.
Bardot hefur lengi barist fyrir réttindum dýra.
Leikkonan Brigitte Bardot var fyrir rétti í París í dag fundin sek um að ýta undir mismunun og kynþáttahatur með ummælum sínum um múslima. Leikkonan, sem er mikill dýraverndunarsinni, sagði í bréfi til Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta að hún væri „sárþreytt á að vera undir hælum á þessu fólki, sem eru að eyðileggja okkur og eyðileggja landið okkar með því að fara sínu fram." Ummælin, sem einnig birtust í fréttabréfi hennar, voru í kjölfar múslimahátíðarinnar Aid el-Kebir, sem er haldin hátíðleg með því að slátra sauðfé.

Bardot hefur fjórum sinnum áður verið dæmd fyrir sömu sakir, en í þetta sinn voru það frönsku mannréttindasamtökin MRAP sem kærðu ummælin. Leikkonan var dæmd til að greiða 1,7 milljónir í sekt og að greiða samtökunum rúmar hundrað þúsund krónur í skaðabætur.

Lögfræðingur Bardot útilokaði ekki að dómnum yrði áfrýjað. „Hún er þreytt á þessum réttarhöldum," sagði lögfræðingurinn. „Hún hefur á tilfinningunni að fólk vilji þagga niður í henni, en hún mun ekki láta þagga niður í baráttu sinni fyrir réttindum dýra."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×