Viðskipti innlent

713 milljarðar gufað upp frá áramótum

Bakkabræður berjast Verðmæti hluta bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona í Exista hafði rýrnað um fimmtíu milljarða frá áramótum. Pappírspeningarnir hafa fuðrað upp í Kauphöll Íslands frá áramótum.
Bakkabræður berjast Verðmæti hluta bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona í Exista hafði rýrnað um fimmtíu milljarða frá áramótum. Pappírspeningarnir hafa fuðrað upp í Kauphöll Íslands frá áramótum. Markaðurinn/Villi

Verðmæti sautján íslenskra fyrirtækja í Kauphöllinni hefur rýrnað um 712,7 milljarða frá áramótum. Mest hefur virði Kaupþings minnkað eða um 148 milljarða. Tvö önnur fyrirtæki, Exista og FL Group, hafa þurft að horfa upp á meira en hundrað milljarða gufa upp frá áramótum.

Þetta kemur fram í samantekt sem Vísir.is hefur birt á viðskiptavef sínum. Þar segir að til að bæta gráu ofan á svart fyrir Exista og FL Group þá hafa kjölfestueignir þeirra í íslenskum félögum einnig hrapað. Þannig hefur rúmlega 23 prósenta hlutur félagsins í Kaupþing rýrnað um 34,1 milljarð og 39 prósenta hlutur þess í Bakkavör um 16,6 milljarða. Rúmlega 30 prósenta hlutur FL Group í Glitni hefur rýrnað um 26,8 milljarða.

Eins og gefur að skilja hafa stærstu hluthafar fyrirtækjanna einnig þurft að horfa upp á eignir sínar rýrna mikið. Þannig hefur 45,21 prósents hlutur bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssonar í Exista rýrnað um 50,1 milljarð frá áramótum. Fjárfestingar­félagið Kista, sem er í eigu SPRON og nokkurra annarra sparisjóða, hefur þurft að horfa upp á 8,94 prósenta hlut sinn í Exista minnka að verðmæti úr 20,1 milljarði í 10,2 milljarða eða um 9,9 milljarða.

Björgólfsfeðgar hafa einnig fundið fyrir erfiðum tímum í Kauphöllinni. Alls hafa þrír lykil­hlutir þeirra í Landsbankanum, Straumi-Burðarási og Eimskipi rýrnað um 56,3 milljarða. Þar munar mest um rétt rúmlega 40 prósenta hlut þeirra í Landsbankanum sem hefur rýrnað um 35,9 milljarða og 32,89 prósenta hlut þeirra í Straumi sem hefur rýrnað um 14,8 milljarða.

Hluthafar FL Group hafa einnig fengið þungt högg. Gengi bréfa í félaginu hefur fallið um 55,5 prósent frá áramótum og það hefur komið við stærstu hluthafa félagsins. Baugur Group, sem á 36,47 prósenta hlut í FL Group í gegnum BG Capital og Baug Group, hefur þurft að horfa upp á eign sína í félaginu rýrna um 39,8 milljarða frá áramótum. Hlutur Fons, félags Pálma Haraldssonar, varaformanns stjórnar FL Group, upp á 12,21 prósent hefur rýrnað um 13,3 milljarða og hlutur Hannesar Smárasonar hefur rýrnað um 10,8 milljarða.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×