Viðskipti innlent

Skjóta sig í fótinn í skattaparadísum

Ingimar Karl Helgason skrifar
Brýnt að skila framtalinu. Ríkið verður ekki endilega af tekjum, nema menn svíkist um að telja fram. Markaðurinn/E.Ól.
Brýnt að skila framtalinu. Ríkið verður ekki endilega af tekjum, nema menn svíkist um að telja fram. Markaðurinn/E.Ól.

„Ríkið verður ekki endilega af neinum tekjum, nema menn telji tekjurnar ekki fram. En þá eru menn að svíkja undan skatti,“ segir Elín Árnadóttir, yfirmaður skatta- og lögfræðisviðs PricewaterhouseCoopers.

Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, hefur bent á að um þriðjungur skráðra félaga í Kauphöllinni sé í eigu félaga sem skráð eru erlendis. Indriði bendir á að tæplega 60 prósent eignarhalds í Straumi sé erlendis, 56 prósent í Bakkavör Group, ríflega helmingur í Landsbanka og Exista, þriðjungur í Glitni og fimmtungur í FL Group, svo dæmi séu tekin. Vafalaust sé megnið af því í eigu Íslendinga. Meirihluti þessa sé í eigu félaga sem skráð séu í Hollandi, Lúxemborg og á lágskattasvæðum.

Indriði telur einnig að þetta geti haft áhrif á tekjur sameiginlegra sjóða.

Elín Árnadóttir bendir á að einstaklingar, innlendir sem erlendir, greiði tíu prósenta fjármagnstekjuskatt af arði. Þegar greitt sé til innlendra lögaðila, beri þeim sem greiðir arðinn að halda eftir tíu prósenta skatti. Sé arðurinn greiddur til erlends lögaðila beri að halda eftir fimmtán prósenta skatti.

Ísland hafi gert tvísköttunarsamning við Holland og Lúxemborg. Tekjur séu skattskyldar þar. Fimm prósenta afdráttarskattur sé tekinn af arði, en félag geti fengið hann endurgreiddan ef það skilar framtali. Þetta eigi við um öll félög innan Evrópska efnahagssvæðisins.

En hvað græðir fólk á því að geyma hlutafjáreign í skattaparadísum, Hollandi eða Lúxemborg? „Menn græða ekkert endilega á því. Þeir eru jafnvel bara að skjóta sig í fótinn. Við erum ekki með tvísköttunarsamninga við skattaparadísir og þá eru tekjurnar skattskyldar á Íslandi. Afdráttarskattur til þessara landa er til dæmis fimmtán prósent og fæst ekki endurgreiddur,“ segir Elín Árnadóttir.

En hvað ef félag sem skráð er í Hollandi er í eigu félags sem skráð er í skattaparadís? „Í Hollandi er dreginn afdráttarskattur af arðgreiðslum til aflandsvæða. Þar er almennt ekki tekinn af neinn skattur. Þegar einstaklingurinn tekur svo arðinn eða söluhagnaðinn heim, þá greiðir hann sinn tíu prósenta skatt, rétt eins og arðurinn hafi komið beint frá íslensku félagi.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×