Viðskipti innlent

Tækifæri fyrir Ísland

Á þessu ári verða um áttatíu prósent orkugjafa endurnýjanleg.
Á þessu ári verða um áttatíu prósent orkugjafa endurnýjanleg.

Íslensk orkufyrirtæki, verkfræðistofur og fleiri aðilar hafa mikla þekkingu á því að bjóða í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og tækifæri á því sviði eru mörg. Því er nauðsynlegt að Íslendingar fylgist grannt með þróun þessara mála á vettvangi Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í grein sem Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku – samtaka orku- og veitufyrirtækja, skrifar á vef samtakanna.

Framkvæmdastjórn ESB hefur sett fram tillögu um þrjú markmið fyrir sambandið sem ná skuli árið 2020. Bæta á orkunýtingu um 20 prósent, hlutur endurnýjanlegra orkugjafa á að vera 20 prósent og draga á saman losun gróðurhúsaloft­tegunda um 20 prósent.

Gústaf bendir á að hérlendis sé hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa 75 prósent og stefnir í 80 prósent síðar á þessu ári. Í greininni segir hann að José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hafi í ræðu á fundi samtaka atvinnulífsins í Evrópu nýlega lagt áherslu á það að þessi markmiðssetning ESB myndi hafa í för með sér mikla rannsókna- og þróunarvinnu. Eftirspurn eftir nýrri tækni myndi fara vaxandi um heim allan á komandi árum. Þarna þyrfti ESB að taka forystuna og í kjölfarið myndi hinn svonefndi græni pakki í raun stuðla að hagvexti og nýjum störfum – verðmætasköpun.

Ekki voru þó allir sammála þessari nálgun en árlegur kostnaður við græna pakkann svonefnda hefur verið metinn á allt frá 0,6 prósentum til 1-2 prósenta þjóðarframleiðslu ESB.

Gústaf Adolf telur ljóst að í þessu felist tækifæri fyrir íslenskt hugvit og reynslu á þessu sviði.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×