Innlent

Smyglskútugengið senn úr einangrun

Fimm menn sem grunaðir eru um aðild að Fáskrúðsfjarðarmálinu svokallaða hafa í dag verið færðir í héraðsdóm til þess að staðfesta fyrir dómi skýrslur sem lögregla hefur tekið af þeim. Mennirnir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá 21. september. Þrír þeirra voru gripnir á Fáskrúðsfirði og tveir á suðvesturhorninu eftir að um 60 kíló af fíkniefnum, amfetamín, e-pilluduft og e-pillur, fundust í skútu sem tveir mannanna komu á til Fáskrúðsfjarðar þann dag.

Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, verður að líkindum lokið við að staðfesta skýrslutökur af fimmmenningunum fyrir dómi í dag en fjögurra vikna gæsluvarðhaldsúrskurður yfir þeim rennur út á fimmtudag. Með því að staðfesta skýrslurnar komast mennirnir hugsanlega úr einangrun en þar hafa þeir dvalið hingað til, til þess að geta ekki borið saman bækur sínar í málinu.

Aðspurður segir Friðrik Smári að ekki sé búið að taka ákvörðun um það hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir mönnunum en hann telur það ekki ólíklegt. Hann segir enn fremur ómögulegt að segja hvenær rannsókn málsins lýkur en lögreglumenn hafa meðal annars farið til Noregs, Færeyja og Danmerkur í tengslum við rannsóknina.

Alls sitja sex manns í gæsluvarðhaldi vegna málsins, fimm hér á landi sem fyrr segir og einn í Færeyjum. Auk 60 kílóa af fíkniefnum sem fundust í skútunni á Fáskrúðsfirði fundu lögreglumenn tvö kíló af amfetamíni við húsleit í Færeyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×