Innlent

Kortleggja ferðir skútunnar

Bjarni Hrafnkelsson sem situr í gæsluvarðhaldi vegna skútusmyglsins er talinn hafa fjármagnað og pakkað inn fíkniefnunum erlendis. Lögreglumenn sem nú eru staddir í Færeyjum í tenglsum við málið munu síðar halda til Danmerkur og þaðan þræða þá leið sem skútan fór áður en hún hélt til Íslands.

Fimm menn voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald hér á landi og einn í Færeyjum í tengslum við málið. Fjórir þeirra voru úrskurðaðir í fjögurra vikna gæsluvarðhald en gæsluvarðhald yfir einum þeirra rennur út á morgun. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort krafist verði framlengingar á því.

Eins og fram hefur komið í fréttum þá eru höfuðpaurarnir í skútusmyglinu taldir vera tveir, þeir Einar Jökull Einarsson og Bjarni Hrafnkelsson. Að því er fram kemur í gæsluvarðhaldskröfunni yfir Bjarna þá er hann talinn hafa fjármagnað og pakkað inn fíkniefnunum erlendis og Einar Jökull þá um að hafa skipulagt innflutninginn. Um 60 kíló af ólöglegum fíkniefnum fundust um borð í skútunni. Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn, segir rannsóknina miða vel. Hann segir lögreglumenn hafa farið utan í dag til Færeyja þar sem þeir munu yfirheyra Íslendinginn sem þar situr í gæsluvarðhaldi. Eftir þær yfirheyrslur verði ákveðið hvort farið verði fram á að hann verði framseldur hingað til lands.

Þegar lögreglumennirnir hafa lokið störfum í Færeyjum, halda þeir til Danmerkur til frekari rannsókna. Þaðan munu þeir síðan þræða leið skútunnar, það er fara frá Danmörku til Hollands og Þýskalands en skútan er talin hafa siglt til þessara landa áður en hún hélt til Noregs, Færeyja og loks Íslands. Þá segir Friðrik Smári lögreglu hér á landi meðal annars vera að fara yfir siglingagögn til að kortleggja ferðir skútunnar áður en hún hélt hingað til lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×