Innlent

Amfetamínið myndi duga í löglega neyslu hér í hálfa öld

Jón Örn Guðbjartsson skrifar
Í smyglskútunni sem notuð var til að flytja fíkniefnin til Íslands voru 46 kíló af nærri hreinu amfetamíni að talið er. Amfetamín er skráð lyf en dregið hefur stórlega úr notkun þess og skyldra lyfja meðal annars vegna hættu á fíkn. Þol myndast hratt gegn amfetamíni og því kallar neysla þess á stærri skammta með tímanum. Langt leiddir amfetamínfíklar sprauta efninu jafnvel í æð.

Amfetamín var áður notað við geðdeyfð, athafna- og framkvæmdaleysi og við megrun. Núna er ábending á notkun amfetamíns meðal annars tengd ofvirkni og athyglisbresti í börnum. Amfetamín er að mestu selt í 5 milligramma töflum í 30 stykkja pakkningum. Lögleg neysla árið 2006 var tæplega sjö þúsund og fjögur hundruð glös. Áætluð lögleg neysla á þessu ári er mjög svipuð.

Það vekur athygli að lögleg heildarneysla af amfetamíni er rúmt kíló af hreinu efni á ári. Innflutningur skútu-mannanna hefði því nægt til að svara löglegri eftirspurn eftir amfetamíni í nærri hálfa öld. Þeir sem þekkja til í fíkniefnaheiminum telja hins vegar að það magn sem fannst á Fáskrúðsfirði myndi hverfa í neytendur hér á hálfu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×