Erlent

Sérhanna barn til lækninga

Guðjón Helgason skrifar

Richardsson-hjónin í Svíþjóð eygja nú von í baráttu fjögurra ára sonar þeirra við alvarlegan arfgengan sjúkdóm. Þau hafa fyrst Svía fengið leyfi að velja fósturvísa til að sérhanna barn til glasafrjóvgunar. Íslenskur kvensjúkdómalæknir segir Vísindasiðanefnd ákveða hvort slíkt yrði leyft hér.

Felix Richardsson er fjögurra ára. Hann þjáist af lífshættulegum arfgengum sjúkdómi og þarf blóðstofnfrumur. Bróðir hans Matthías er níu ára og ekkert hægt að gera fyrir hann nú. Á einu ári hefur hann misst sjón, heyr og mál og lamast vegna sjúkdómsins. Foreldrar þeirra Fredrik og Helena óskuðu eftir því að fá að fósturvísar yrðu sérvaldir til glasafrjóvgunar svo hægt yrði að ala barn sem gæti aðstoðað við meðferðina á Felix. Orðið var við þeirri ósk.

Fredrik, faðir Felix og Matthias, segir þetta jákvæða ákvörðun og mikinn létti fyrir fjölskylduna. Þungu fargi sé létt af hjarta hans. Helena, móðir drengjanna, segir bræður og systur geta útvegað blóðstofnfrumur sem veiti betri möguleika á beinmergsskiptum. Það auki lífslíkur Felix. Margt þurfi þó að yfirstíga til að ná takmarkinu.

Ný lög frá í fyrra gera þetta mögulegt í Svíþjóð en hvert tilfelli er tekið til meðferðar. Bo Lindblom, formaður Heilbrigðis- og velferðarnefndar, segir mörg rök hafa verið kynnt í málinu og ákvörðunin hafi ekki verið erfið. Þrjár umsóknir hafi borist og upplýsingar frá sérfræðingum skýrar.

Þórður Óskarsson, kvensjúkdómalæknir hjá ART Medica, segir að samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun frá 1996 sé rannsóknir á fósturvísum bannaðar nema í vissum tilvikum. Þær leyfist sem liður í glasafrjóvgunarmeðferð eða ef leitað sé að arfgengum sjúkdómum eða göllum í fósturvísinum sjálfum, sem hafi verið leyft hér. Þórður telur að ósku um annars konar rannsóknir færi líkast til fyrir Vísindasiðanefnd en þær yrðu ekki framkvæmdar hér á landi þó tækni sé til, best sé að leita utan þar sem rannsóknir sem þessar séu gerðar með reglulegu millibili og oft á ári.

Lagafrumvarp sem hefði heimilað notkun íslenskra fósturvísa til stofnfrumurannsókna var tekið af dagskrá á síðasta degi Alþingis í vor. Það var þá tilbúið til afgreiðslu. Það hefði leyft athuganir á fósturvísum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×