Innlent

Allt útlit fyrir að stjórnin haldi velli - Jón Sigurðsson inni á þingi

MYND/Valgarður

Allt útlit er fyrir að ríkisstjórnin haldi velli með minnsta mun, 32 þingmönnum gegn 31 stjórnarandstöðunnar þegar búið er að telja atkvæði í öllum kjördæmum nema Norðvesturkjördæmi. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, sem verið hefur úti í alla nótt er kominn inn.

Róbert Marshall úr Samfylkingunni er hins vegar á leið út og Björk Guðjónsdóttir, Sjálfstæðisflokknum, kemur í hans stað í Suðurkjördæmi sem fjórði þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Lokið var við að telja atkvæði í Suðurkjördæmi á sjöunda tímanum en þar kusu 25.789 af 30.592 og var kjörsókn því um 84 prósent. Framsóknarflokkurinn féll 18,7 prósent atkvæða og tvo menn kjörna, Sjálfstæðisflokkurinn bætti einum manni við sig og fékk fjóra. Fylgi flokksins reyndist 36 prósent í kjördæminu.

Frjálslyndir hlutu 7 prósent atkvæða og því komst Grétar Mar Jónsson á þing. Samfylkingin tapaði hins vegar tveimur mönnum og fékk 26,7 prósent í kosningunum og tvo menn. Róbert Marshall er ekki inni en hann hefur verið það í allt kvöld og nótt.

Vinstri græn fengu 9,9 prósent og einn mann en Íslandshreyfingin náði ekki inn manni með 1,7 prósenta fylgi. Um 25 prósenta útstrikanir voru á lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.

Síðustu tölur lágu einnig fyrir í Norðausturkjördæmi nú á sjöunda tímanum og þar fengu framsóknarmenn 24,2 prósent og eru með tvo menn miðað við nýjustu tölur. Hins vegar fær Sjálfstæðisflokkurinn 28 prósenta fylgi og þrjá menn og Samfylkingin fær einnig þrjá menn með 20,8 prósenta fylgi. Vinstri gærn fá inn tvo menn með 19,6 prósent. Hvorki Frjálslyndi flokkurinn né Íslandshreyfingin náðu inn manni, frjálslyndir með 5,9 prósent og Íslandshreyfinging 1,2.

EF horft er til landsins alls hefur:

Framsókn (B) - 11,9% - Átta þingmenn

Sjálfstæðisflokkur (D) - 36,6% - 24 þingmenn

Frjálslyndi flokkurinn (F) - 7,2% - Fjórir þingmenn

Íslandshreyfingin (I) - 3,3% - Enginn þingmaður

Samfylkingin (S) - 26,9% - 18 þingmenn

Vinstri grænir (V) - 14,3% - Níu þingmenn

 

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×