Innlent

Skoðað verður vel hvort málinu verður áfrýjað

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í Baugsmálinu, sagði skömmu eftir að dómur var kveðinn upp í hádeginu í dag að skoða yrði mjög vel hvort málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar.

Eins og fram kom í fréttum var Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi, fyrir bókhaldsbrot í rekstri Baugs þegar félagið var almenningshlutafélag.

Sigurður Tómas sagðist eiga eftir að fara yfir forsendur dómsins og þá sagði hann að það kæmi nokkuð á óvart að tíu ákæruliðum í málinu hefði verið vísað frá.

Sigurður Tómas benti enn fremur á að saksóknari hefði átta vikur til að ákveða hvort málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar en ákærðu fjórar en hann ætti eftir að fara vel yfir dóminn.

Spurður hvort ekki væri léttir fyrir ákæruvaldið að fá lok sektardóm í málinu eftir að deilt hefði verið hart á ákæruvaldið bæði nú og í fyrra málinu, sagði Sigurður Tómas að það væri ekki viðeigandi að nota það orðalag. Það væri alltaf alvarlegt ef einhver væri dæmdur til refsingar.

Enn fremur sagði Sigurður Tómas, aðspurður um það hvort skilorðsbundnir dómar í málinuværu og léttvægir að hans mati, að skilorðsbinding gæti komið til af ýmsum ástæðum. Jón Ásgeir og Tryggvi væru með hreinan sakaferil og það væri langur tími síðan brotin hefðu verið framin. Hann sagði þó óvarlegt að vera með nokkrar getgátur um ástæður skilorðsbindingar. Hann ætti eftir að lesa dóminn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×