Innlent

Ekki ákveðið hvort frekari hvalveiðikvóti verði gefinn út

MYND/Vilhelm

Íslensk stjórnvöld hafa ekki ákveðið hvort hvalveiðum verður haldið áfram og það veltur töluvert á því hvort markaður er fyrir hvalaafurðirnar. Þetta segir Geir H. Haarde forsætisráðherra í samtali við Reuters-fréttastofuna í dag.

Í frétt Reuters er rifjuð upp sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda frá því í haust að hefja aftur atvinnuveiðar á hval með því að gefa út hvalveiðikvóta upp á 30 hrefnur og níu langreyðar. Bent er á að ákvörðunin hafi mætt mikill mótstöðu á alþjóðavettvangi og enn sé ekki búið að selja neitt af hvalkjötinu sem veiddist í fyrra.

Geir segir að um tilraun hafi verið að ræða hjá íslenskum stjórnvöldum en að Ísland hafi ekki gefið frá sér réttinn til sjálfbærra hvalveiða. Hins vegar verði að taka tillit til nokkurra atriða áður en ákvörðun um áframhaldandi veiðar verði tekin, þar á meðal álits alþjóðasamfélagsins, áhrifa veiðanna á ferðaþjónustu og sömuleiðis hvort markaður sé fyrir afurðirnar.

Segir enn fremur í grein Reuters að 100 tonn af hvalkjöti séu nú í frysti og beðið sé eftir niðurstöðum um það hvort hægt sé að selja kjötið til manneldis. Haft er eftir Kristjáni Loftssyni, forstjóra Hvals hf., að um leið og þær liggi fyrir verði ekkert mál að selja kjötið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×