Innlent

Urmull af aprílgöbbum

Fjölmargir hlupu apríl í gær enda voru aprílgöbb fjölmiðlanna einstaklega fjölbreytt að þessu sinni. Hér á Stöð 2 aðstoðaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, við sprellið og er óhætt að segja að hann hafi átt stórleik í hlutverki sínu.

Fjölmiðlar heimsins hafa lengi látið almenning hlaupa apríl. Til dæmis varð frægt árið 1957 þegar Breska ríkisútvarpið birti frétt um að spaghettíuppskeran í Sviss hefði brugðist og fjórum áratugum síðar vakti auglýsing Burger King athygli um að hamborgarar fyrir örvhenta væru komnir á markað þar sem sósan læki hægra megin undan brauðinu.

Aprílgöbb gærdagsins hér á landi voru fjölbreytt að vanda. Bæði Ríkissjónvarpið og Fréttablaðið tilkynntu um brunaútsölu á munum úr eigu RÚV, fréttastofa útvarps upplýsti að trén úr Heiðmörk hefðu fundist á lóð Áhaldahúss Kópavogs og vefsíðan Suðurland.is boðaði útsölu á munum úr eigu Byrgisins.

Hér á Stöð 2 ákváðum við hins vegar að segja frá því að úrtökupróf fyrir 240 manna varalið ríkislögreglustjóra væru hafin. Við fengum í lið með okkur fólk úr af líkamsræktarnámskeiðinu Boot Camp sem var við æfingar á Klambratúni og sjálfan dómsmálaráðherrann Björn Bjarnason. Björn fór á kostum í hlutverki sínu og brá ekki svip enda bitu allmargir á agnið og fóru inn á vefsíðu þar sem þeir var tjáð að þeir hefðu hlaupið apríl. Við þökkum Birni og fólkinu í Bootcamp kærlega fyrir aðstoðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×