Erlent

Vísindamenn rækta hjartaloku

Breskir vísindamenn hafa í fyrsta skipti ræktað hluta úr mannshjarta úr stofnfrumum. Sir Magdi Yacoub, sem fór fyrir vísindamönnunum, sagði að læknar gætu farið að nota íhluti, ræktaða í tilraunastofum, í hjartaaðgerðum innan þriggja ára. Einnig spáði hann því að hægt yrði að rækta heilt hjarta úr stofnfrumum innan tíu ára.

Verkefnið hefur tekið tíu ár og í rannsóknarliðinu voru meðal annars eðlisfræðingar, lyfjafræðingar, læknar og frumuvísindamenn. Vísindamenn líta á verkefnið sem stórt skref í þá átt að ræktuð verði heilu líffærin. Þau yrðu síðan grædd í fólk en biðlistar þeirra sem vantar ný líffæri eru æði langir.

Vísindamennirnir tóku stofnfrumurnar úr beinmerg og ræktuðu úr þeim hjartalokufrumur. Því næst settu þeir frumurnar í kollagenmót og tókst að mynda hjartalokur. Stofnfrumur geta orðið að hvaða frumu sem er en vísindamenn hafa áður myndað sinar, liðþófa og þvagblöðru. Hjartalokan er samt það flóknasta sem vísindamenn hafa gert. Síðar á árinu verða þær græddar í svín til þess athuga hvernig og hvort þær virka eins og til er ætlast.

Fréttavefur BBC skýrði frá þessu í dag.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×