Innlent

Jón Ásgeir spurður út í Thee Viking á fimmtudag

Ákveðið hefur verið að ljúka skýrslutöku af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, í tengslum við endurákæru í Baugsmálinu á fimmtudaginn kemur en þá staldrar hann stutt við hér á landi. Þetta kom fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Eins og fram kom í fréttum í síðustu viku stöðvaði dómari Sigurð Tómas Magnússon, settan saksóknara, í yfirheyrslum sínum yfir Jóni Ásgeiri á fimmtudaginn áður en saksóknari hafði lokið við að spyrja hann út í 18. ákærulið ákærunnar. Hann snýr að meintum fjárdrætti hans og Tryggva Jónssonar, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, í tengslum við skemmtibátinn Thee Viking.

Skýrslutaka af Tryggva hófst á föstudag og hélt áfram í dag en reiknað er með að henni ljúki á miðvikudag. Á fimmtudag verður svo tekið til við að yfirheyra Jón Gerald Sullenberger vegna hans þáttar í málinu en Jóni Ásgeiri skotið inn í dagskrána um hálftvö. Jón Ásgeir staldrar stutt við því hann lendir um hádegisbil á Reykjavíkurflugvelli og fer aftur af landi brott um miðjan dag þegar yfirheyrslum er lokið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×