Innlent

Dómar mildaðir yfir tveimur ránsmönnum

Ívar Smári mætti fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þegar þessi mynd var tekin.
Ívar Smári mætti fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þegar þessi mynd var tekin.

Hæstiréttur mildaði í gær dóma yfir tveimur ránsmönnum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði dæmt Ívar Smára Guðmundsson í fjögurra ára fangelsi fyrir rán í Bónusvídeó og fleiri afbrot. Hæstiréttur mildaði þann dóm um eitt ár. Jafnframt vísaði dómurinn frá skaðabótakröfu upp á ríflega 1,6 milljónir króna vegna vanreifunar.

Þá hafði Héraðsdómur dæmt Arthur Geir Ball í þriggja ára fangelsi fyrir vopnað rán í versluninni Krónunni. Hæstiréttur stytti refsitíma hans einnig um eitt ár.

Ívar Smári var sakfelldur fyrir tvö ránsbrot, fyrir að hafa ráðist á þrjár konur og slegið þær í andlit með krepptum hnefa, fjársvik, þjófnað og fleiri brot. Dómurinn mat til refsilækkunar að Ívar Smári játaði flest brotin greiðlega og var samvinnuþýður við meðferð málsins.

Arthur Geir var dæmdur fyrir að fara með andlit sitt hulið inn í verslun, ógna afgreiðslustúlku með 24 sentimetra löngum fjaðurhníf og skipa henni að afhenda sér fjármuni, sem reyndust nema nær 100 þúsundum króna. Hæstiréttur leit meðal annars til ungs aldurs hans, en hann var einungis 18 ára þegar hann framdi brotið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×