Erlent

Stuðlar að nýrri meðferð við einhverfu

Vonast er til að nýjar meðferðarleiðir við einhverju séu í sjónmáli.
Vonast er til að nýjar meðferðarleiðir við einhverju séu í sjónmáli. MYND/Getty

Vísindamenn segja að niðurstöður nýrrar viðamikillar rannsóknar á einhverfu muni hjálpa til við að finna nýjar meðferðarleiðir við þessum flókna heilakvilla.

Með því að rannsaka stærsta úrtak fjölskyldna með margvíslegar gerðir af einhverfu sem notað hefur verið tókst vísindamönnum að finna gen sem þeir telja að hafi mikilvæg áhrif á einhverfu. BBC greinir frá þessu á fréttavef sínum.

Vísindamenn hafa lengi talið að villur í genauppbyggingu einstaklinga geti að einhverju leyti valdið einhverfu. Niðurstöður þessarar nýju rannsóknar leiddu til uppgötvunar á geni sem kallast neurexin 1 á litningi númer ellefu.

Neurexin tilheyrir genafjölskyldu sem hjálpar til við samskipti á milli taugafruma og vísindamennirnir telja að það spili lykilhlutverk varðandi þá kvilla sem tilheyra einhverfu.

Yfir 120 vísindamenn frá nítján löndum unnu að rannsókninni, sem hófst fyrir fimm árum. John Burn, prófessor við Mannerfðafræðistofnunina við Háskólann í Newcastle, sagði að þótt þessi eina uppgötvun gæfi ekki skýr svör um orsakir einhverfu væri hún lykilskref í þróun á meðferðum þar sem hún myndi nýtast við lyfjaþróun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×