Tónlist

Íslenskt æði í Þrándheimi

Í blöðunum Mikið var fjallað íslensku sveitirnar, Reykjavík!, Lay Low og ÚMTBS.
Í blöðunum Mikið var fjallað íslensku sveitirnar, Reykjavík!, Lay Low og ÚMTBS.

„Þeir eru alveg til í þetta rokk, Norðmenn eru ekki eins leiðinlegir og ég bjóst við," segir Valdimar Jóhannsson, bassaleikari hljómsveitarinnar Reykjavík! Valdimar var staddur á norsku tónlistarhátíðinni by:Larm í Þrándheimi um helgina en Íslendingar voru afar áberandi á hátíðinni.

Auk Reykjavíkur! spiluðu Lay Low og Últra Mega Teknóbandið Stefán á hátíðinni um helgina.

Strax fyrir helgi var ljóst að beðið var komu Íslendinganna til Þrándheims með eftirvæntingu. Blað hátíðarinnar var undirlagt af greinum um þá og fólki tilkynnt að það mætti ekki missa af tónleikum þeirra. Löng grein var um Lay Low og undraverðan frama hennar á stuttum tíma. Reykjavík! var hampað sem frábærri rokksveit og söngvara Últra Mega Teknóbandsins Stefáns var hrósað í há­stert. Sagt var að ef Sid Vicious væri enn á lífi hefði hann öfundað þennan 16 ára gamla dreng, svo góður sviðsmaður væri hann.

Valdimar kannast við það að viðbrögð Norðmanna hafi verið misjöfn: „Það eru nokkuð margir búnir að spyrja hvort við séum geðveikir. Ég gæti trúað því að þeir hafi komist að þeirri niðurstöðu eftir að hafa séð okkur og ÚMTBS, þetta er svolítið veruleikafirrt sjóv hjá okkur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×