Viðskipti erlent

Forstjóri Volkswagen segir upp

Bernd Pischetsrieder, forstjóri þýsku bílasmiðja Volkswagen, ásamt Benedikt XVI páfa.
Bernd Pischetsrieder, forstjóri þýsku bílasmiðja Volkswagen, ásamt Benedikt XVI páfa. Mynd/AFP

Bernd Pischetsrieder, forstjóri þýsku bílasmiðja Volkswagen, ætlar að segja starfi sínu lausu um áramótin en við starfi hans tekur Martin Winterkorn, yfirmaður Audi. Á sama tíma hefur Christian Streiff, fyrrum forstjóri Airbus, tekið við starfi forstjóra franska bílaframleiðandans Peugeot, eins helsta samkeppnisaðila Volkswagen.

Að sögn breska ríkisútvarpsins (BBC) hefur Volkswagen, sem er einn stærsti bílaframleiðandi í Evrópu, hagrætt mikið í rekstri sínum og hefur meðal annars sagt upp 20.000 manns.

Pischetsrieder hafði nýverið endurnýjað samning sinn við Volkswagen fram til ársins 2012 og því kemur uppsögnin á óvart. Stjórn fyrirtækisins hefur hins vegar ekki skýrt frá ástæðum uppsagnarinnar að öðru leyti en því að hann ætli að hætta 31. desember næstkomandi. BBC greinir hins vegar frá því að einhugur hafi ekki verið innan stjórnar Volkswagen með uppsagnir á starfsfólki bílasmiðjunnar enda sé helmingur stjórnarmanna úr röðum starfsmanna fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×