Fótbolti

Varnarmaður Wisla Krakow í fimm leikja bann

Benni McCarthy lét dómara leiksins vita af árásunum sem hann varð fyrir í hálfleik, en sagði þær hafa haldið áfram jafnvel eftir að leikurinn var flautaður af
Benni McCarthy lét dómara leiksins vita af árásunum sem hann varð fyrir í hálfleik, en sagði þær hafa haldið áfram jafnvel eftir að leikurinn var flautaður af NordicPhotos/GettyImages

Aganefnd evrópska knattspyrnusambandsins dæmdi varnarmanninn Nikola Mijailovic hjá pólska liðinu Wisla Krakow í fimm leikja bann fyrir kynþáttaníð í garð Benni McCarthy hjá Blackburn í leik liðanna á dögunum.

Blackburn sendi strax eftir leikinn inn athugasemd við framkomu serbneska leikmannsins sem á ítrekað að hafa látið í ljós misjafnar skoðanir sínar á Suður-Afríkumanninum í leiknum.

Mijailovic hefur alfarið neitað þessum ásökunum og hefur frest fram á mánudag til að áfrýja niðurstöðu nefndarinnar.  

Talsmaður enska félagsins fagnaði þessari niðustöðu í málinu en aganefndin byggir ákvörðun sína á skýrslu sem hún fékk í hendur frá leikmönnum Blackburn og dómara leiksins.

"Við viljum láta í ljós ánægju okkar vegna þess hve hraðar hendur aganefndin hafði við afgreiðslu málsins og okkur þykir hún hafa sent út skýr skilaboð um að fordómar og kynþáttaníður verði ekki liðinn í keppnum sambandsins," sagði í yfirlýsingu frá Blackburn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×