Innlent

Fleiri vilja vinstristjórn

68 prósent þeirra sem þátt taka í nýrri könnun Fréttablaðsins vilja skipta út flokkum í ríkisstjórninni eftir næstu þingkosningar. Fleiri vilja fá vinstristjórn heldur en áframhaldandi hægri stjórn.

Í könnun Fréttablaðsins var spurt hvers konar stjórnarmynstur fólk vildi sjá eftir næstu kosningar. Rúm 32 prósent vildu sjá Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn áfram í stjórn en afgangurinn: tæp 68 prósent, vilja sjá aðra samsetningu flokka í næstu ríkisstjórn. Þar af vilja tæp 36 prósent fá vinstri stjórn og er það vinsælasti kosturinn sem boðið var upp á í könnuninni.

Fólkið var einnig spurt hvaða flokka það vildi helst sjá í ríkisstjórn og gat þá valið fleiri en einn. Flestir, rúm 54 prósent vildu sjá Sjálfstæðisflokkinn áfram í ríkisstjórn. Samfylkingin er annar vinsælasti kosturinn, rúm 48 prósent þátttakenda vildu sjá hana í ríkisstjórn og fast á hæla þeim fylgja vinstri grænir.

Sem fyrr halla konur meira til vinstri en karlmenn, rúm 46 prósent kvenna vildu fá vinstri stjórn en ekki nema tæp 28 prósent karla. Þetta snýst við þegar litið er á hverjir vilja halda núverandi stjórnarsamstarfi: 37,6 prósent karla vildu sama stjórnarmynstur en aðeins rúm 25 prósent kvenna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×