Viðskipti erlent

Hlutabréf lækkuðu í Evrópu

Verðbréfamiðlarar í þýsku kauphöllinni, Deutsche Börse.
Verðbréfamiðlarar í þýsku kauphöllinni, Deutsche Börse. Mynd/AFP

Gengi hlutabréfa lækkaði talsvert á mörkuðum í Evrópu í dag í kjölfar ótta fjárfesta við að evrópski seðlabankinn muni hækka stýrivexti á næstunni til að koma í veg fyrir aukna verðbólgu í aðildarríkjum Evrópusambandsins (ESB). Hagvöxtur mældist 0,6 prósent á fyrsta ársfjórðungi innan aðildarríkja ESB og er búist við prósenta aukningu út árið. Samfelldur hagvöxtur sem þessi hefur ekki mælst innan ESB síðan um mitt ár 2000.

Bresku námafyrirtækin Anglo American og Antofagasta, sem bæði eru skráð í kauphöll Lundúna í Bretlandi, hafa fram til þessa lækkað mest eða um 3 prósent.

Þá lækkaði DJ Stoxx hlutabréfavísitalan um 1,8 prósent og stendur hún í 472 stigum. Vísitalan náði methæðum 11. maí síðastliðinn en þá fór hún í 563 stig.

Ennfremur lækkaði FTSEurofirst 300 vísitalan um 0,4 prósent í dag. Hún lækkaði um 5 prósent um miðjan maí og var um að ræða mestu lækkun vísitölunnar síðan í janúar árið 2003 þegar fjárfestar losuðu sig við hlutabréf af ótta við verðbólguhækkanir, hækkanir stýrivaxta og hægingu á efnahagslífinu. Síðan þá hefur hún lækkað um 11 prósent og nemur hækkun hennar á ársgrundvelli einungis 2 prósentum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×