Innlent

Bensínstyrkir verði ekki skertir

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti í dag að hvetja til þess að fallið verði frá því að skerða bensínstyrk til öryrkja. Þá vilja sjálfstæðismenn að styrkir hreyfihamlaðra til bifreiðakaupa verði auknir. Ákvörðunin um að fella niður bensínstyrkinn til hreyfihamlaðra var svar heilbrigðisráðuneytisins við 1% hagræðingarkröfu til ráðuneyta. Samþykkt Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í dag er því löðrungur fyrir heilbrigðisráðherrann sem kemur úr samstarfsflokknum. Bergur Þorri Benjamínsson, fulltrúi í heilbrigðisnefnd, vitnaði í nokkuð fræg orð ágæts manns í samtali við fréttamann Stöðvar 2 um málið: „Svona gera menn ekki.“ Það telur hann meginpunktinn í málinu. Hann sagði samstöðuna um ályktunina algjöra í nefndinni. Þá segir Bergur að svar ráðherra í fyrirspurnartíma um málið hafi verið að þetta kæmi frá heilbrigðisráðuneytinu, og þ.a.l. Framsóknarflokknum, en það svar er ekki tækt að mati Bergs.  Árni M Mathiesen fjármálaráðherra segir að þetta sé fyrst og fremst áskorun á heilbrigðisráðherrann sem sé nú þegar í viðræðum við öryrkja vegna málsins. Árni segir erfitt fyrir fjármálaráðherra að meta þegar ráðherrar fá frjálsar hendur um atriði eins og það sem hér um ræðir. Eins og komið hafi fram hjá heilbrigðisráðherra sé hann þó að ræða þetta við hagsmunaaðila.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×