Skoðun

Bikarúrslit á menningarnótt

Stærsti leikurinn á íslenska knattspyrnudagatalinu fer fram á laugardag þegar Reykjavíkurstórveldin Valur og Fram mætast á heimavelli Safamýrarliðsins, Laugardalsvelli. Leikurinn á alls ekki að vera síðasti leikur ársins heldur á leikurinn að fara fram á menningarnótt í ágústmánuði. Ég sé fyrir mér að nú loksins geti íþróttafíklar sem hafa lítinn áhuga á að fara í miðbæinn til að horfa á gjörning listamanna skellt sér á völlinn á menningarnótt. Leikurinn gæti orðið kærkomin upphitun fyrir bæjarröltið, tónleikana og flugeldasýninguna. Rök sem mæla með því að leikurinn eigi ekki að fara fram í lok leiktíðar: - Aðsóknin frá því ákveðið var að gera bikarúrslitin að lokaleik knattspyrnusumarsins árið 1999 hefur verið með mjög dræm. Í fyrra mættu til dæmis aðeins 2049 áhorfendur á úrslitaleik Keflavíkur og KA og aðeins einu sinni hefur aðsóknin á bikarúrslitaleik náð yfir fimm þúsund manns eftir breytingarnar en það var á leik KR og ÍA árið 1999. Þá var stemningin slík með KR að nánast var uppselt á æfingar liðsins. - Á sama tíma og leikurinn fer fram er heil umferð í enska boltanum. Það er deginum ljósara að fjölmargir stuðningsmenn Liverpool, Manchester United, Chelsea og Arsenal eiga eftir að velja pöbbinn eða sófann frekar en að fara á leikinn. - Veðrið hefur oft verið leiðinlegt á úrslitaleikjum undanfarinna ára, frá því að leiknum var seinkað til lok septembers. Á laugardag er spáð norðaustanátt með slyddu eða rigningu. Við búum á Íslandi og það er allra veðra von, sérstaklega á þessum tíma. - Báðum liðum hefur gengið afleitlega eftir að þau unnu leiki sína í undanúrslitum og greinilegt að úrslitaleikurinn hefur tekið einbeitinguna af deildinni og að úrslitaleiknum. Valsemenn hlutu aðeins fimm stig úr síðustu sjö leikjum sínum í mótinu að undanúrslitum gegn Fylki loknum en fyrir hafði liðið hlotið 27 stig úr fyrstu 11 leikjum sínum. Fram vann fyrstu tvo leikina eftir sigurinn gegn FH í undanúrslitum en svo ekki sögunni meir og liðið féll. Annar sigurinn var gegn Val í sögulegum leik þar sem Bo nokkur Henriksen gerði bæði mörk Fram en hann kom frá Val um mitt sumar. Það er kominn tími til KSÍ átti sig á því að knattspyrnufólk og knattspyrnuáhugamenn vilja ekki hafa stærsta leik ársins í hausthreti fyrir framan hálftóman Laugardalsvöll. Öll viljum við fá leikinn í ágúst sól og sumaryl eins og hér forðum. Flytjum leikinn fram á Menningarnótt! En vonandi fáum við skemmtilegan leik í slyddunni á laugardag. Fótboltinn er kaldhæðinn leikur og væri það ekki dæmigert að Fram ynni leikinn 1-0 og Bo Henriksen skoraði sigurmarkið? Hjörvar Hafliðason - hjorvar@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×